Blog Layout

„Yoga er ekki bara einhverjar flottar stöður sem bara liðugar stelpur á Instagram og Pinterest geta gert. Yoga er svo mikið meira! — yoga er lífsstíll og lífsviðhorf,“ segir yogakennarinn Eva Rúnarsdóttir sem hjálpaði starfsfólki Joe & The Juice að finna hugarró á dögunum.

Starfsfólk Joe & The Juice tók sér smá pásu frá því að útbúa samlokur og djúsa á dögunum og fór saman í yoga í Joe & The Juice í Laugum. Eva stýrði tímanum en hún játar að það sé mikilvægt að hugleiða og reyna að ná einhvers konar jafnvægi, nú þegar truflunin úr öllum áttum hefur aldrei verið meiri. „Við sem manneskjur höfum aldrei áður upplifað svona mikið áreiti,“ segir hún.

„Það er einhvernvegin allt bara einu scrolli frá okkur og því mikilvægt að halda fókus og leggja frá sér símann eða tölvuna og finna fyrir sjálfum sér, finna fyrir öðrum, fólki sem er beint fyrir framan þig. Æfa sig í að vera vitni af hugsunum sínum, vitni af andardrættinum og sjá að við öll erum svo miklu meira en bara hugsanir og viðbrögð sem eru stöðugt í gangi í hausnum okkar.“

Eva segir að það geti verið erfitt að vera í núinu og njóta stundar og staðar á meðan við verðum fyrir stöðugu áreiti frá símunum okkar. „Þetta eru ekki bara bara samfélagsmiðlar, heldur líka bara pósturinn okkar, vinnan, vinir. Allir geta náð í okkur hvenær og hvar sem er,“ segir hún.

„Þetta getur verið mjög þreytandi og það getur verið erfitt að vera skapandi, fókuseraður og raunverulega til staðar. Svo eru allir að sýna hápunktana í lífi sínu og stundum getur maður aðeins gleymt sér og farið að bera sig saman við aðra og hvernig líf þeirra lítur út á Instagram. Maður gleymir þá að vera þakklátur fyrir það sem að maður hefur. Samfélagsmiðlar hafa upp á margt gott að bjóða en maður þarf að læra að nota þá rétt. Við þurfum kannski að hætta að scrolla í byrjun og lok hvers dags og gefa okkur tíma í að lenda í líkamanum, tjékka inn og komast úr hugsanaruglinu. Yoga er það sem að hjálpar mér allra allra mest með það.“

En virka einfaldar æfingar sem hægt er að gera heima eða í vinnunni?

„Já, algjörlega! Taka öndunaræfingar við skrifborðið, standa upp og teygja sig aðeins, taka örstuttan labbitúr í hádeginu og kannski hugleiða í svona tíu mínútur, eða bara loka sig inn á klósetti í þrjár mínútur til að hugleiða smá. Það mikilvægasta er bara að skuldbinda sig til að sinna sjálfum sér í að minnsta kosti tvær mínútur á dag. Rannsóknir sýna að ef maður hugleiðir í 11 mín á dag þá geti maður breytt heilanum sínum, svo kannski ætti maður að byrja þar? Eða hafa það sem markmið.“

Eva segir að fólk í dag sé mun opnara fyrir því að stunda yoga en áður. „Það er heilmikil vitundarvakning í gangi og alveg ótrúlega mikið í boði, sem er svo dásamlegt,“ segir hún.

„Fólk er farið að sjá og finna að við þurfum öllsömul á þessu að halda. Serstaklega er fólk farið að gera sér grein fyrir því hvað stress og streita er algeng og hversu alvarleg og lífshættuleg áhrif hún getur haft á okkur. Fólk vill því bæta sig og öðlast meiri lífsgæði á einhvern hátt. Og það færðu með yoga, meiri lífsgæði!“

The post Yoga er lífsstíll appeared first on Joe & the juice.

Share by: